16.6.2009 | 23:57
Þriðjudagur - Flóðhesturinn hljóp
Bæði í dag og gær fór hlunkurinn um hjólandi og hlaupandi. Hljóp að vísu bara í dag; þetta hljómar bara betur svona. Það þýðir lítið að láta frjókornin slá sig út af laginu og fella sig; frekar fara hjólandi í vinnuna og til baka. Ræskja sig nokkrum sinnum og láta gossa. Fátt er til tíðinda af hjólamennsku nema að brátt mun ég lengja leiðina - spurning um að fara út fyrir Kársnesið, bara ef bæri búið að malbika þennan bút í Fossvogi. Leiðinlegt að þurfa að fara af baki og teyma yfir hæðina.
Eftir vinnu, kominn heim eftir nokkra hvíld fór ég út að hlaupa. Hef ekki hlaupið síðan í Vatnsmýrarhlaupi og því var ekki seinna vænna en að hlaupa lítið eitt. Því í fyrradag staðfesti ég þátttöku mína í "Laugaveginum" og nú er mánuður til stefnu. Í kvöld skokkaði ég 14,5 km á hægum hraða. Var nú þungur á mér - hljóp sem mest á grasi og utan vega. Fæturnir eru ekki alveg að samþykkja að hjóla og hlaupa sama daginn - en ætli ég hafi ekki bara gott af því.
Á morgun verður rösklegt 4,8 km. hlaup, fyrst upphitun og svo rólegt til hvíldar. Reyni að fara snemma út og svo með dóttur í sund.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.