6.6.2009 | 23:57
Laugardagur - Úlfljótsvatnshlaup
Í dag hljóp ég Úlfljóstvatnshlaupið, ásamt mörgum öðrum og þar á meðal skólabróður mínum, Pjetri St. Arasyni. Þetta er nýtt utanvegahlaup sem er glæsilegt í alla staði. Leiðin fjölbreytt: Ég varð að hoppa yfir skurði, stökkva yfir lækjarsprænur, fara upp og niður grýttar brekkur, hlaupa eftir hjólförum og kindastígum - mjög skemmtilegt. Aðstaða á keppnisstað og drykkjarstöðvar eins og maður vill hafa það. Veðrið var líka framúrskarandi gott.
Hlaupið var auglýst sem 20+ km svo maður vissi í sjálfu sér ekki hvenær það væri búið, nema að það væri lengra en 20 km og hélt ég það vera eitthvað um 21. Þannig að þegar kom að lokum þess gaf ég í og jók hraðann frá 16da kílómetra - reyndi að láta mig rúlla - og þegar næstu nítján voru í höfn var okkur sagt að þrír væru eftir. Af þeim sökum var ég búinn með endasprettinn aðeins áður en ég kom í mark. Síðasti kílómetrinn var því erfiður.
Er þetta er skrifað er ég öng stífur og með strengi; verstur þykir mér verkurinn í táberginu sem kemur aftur og aftur. Nú er bara að meta ástandið og svara spurningunni hvort herrann sé tækur í Laugavegshlaupið. Annars held ég að hjólatúrarnir séu að bæta mitt ástand - læri og lappir voru fínar allt hlaupi, fann aðeins fyrir þreytu í IT-bandi en það lagaðist með teygjum og togi.
Á morgun fer ég til útlanda og verð þar fram á fimmtudag; kannski góð hvíld fyrir "7 tindahlaupið"!
Athugasemdir
Sæll. Má til með að kvitta. Gaman að fá tækifæri til að fylgjast með æfingum og keppni hjá þér. Gangi þér vel í hlaupum sumarsins. Bestu kveðjur frá fyrrverandi Flensborgara.
Linda B. Loftsdóttir (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.