4.6.2009 | 22:13
Fimmtudagur - Hjólað í bráðri hættu
Í anda sannrar íþróttamennsku er haldið áfram að hlaupa og hjóla, bæði kvölds og morgna. Þess á milli er teygt og skemmt heimilisfólki - ekki öllum býðst að horfa á stirðasta menni Íslands reyna sig. Í morgun á leið minni til vinnu, kominn framhjá Nauthólsvík, sprakk slangan í afturdekkinu á hjólinu og neyddist íþróttamennið til að taka strætó upp á Hlemm. Fór með hjólið í viðgerð og fékk gert við það. Nú þarf ég að læra listina og strjúka dekkjunum oftar í leit að glerbrotum. Sótti svo fákinn seinnipartinn og hjólaði heim. Til að ná þeim kílómetrum sem farnir eru venjulega tók ég nokkrar slaufur - Kársnes og Arnarnes.
Á Álftanesveginum tók bjálfi á stórum jeppa fram úr öðrum slíkum er þeir keyrðu á móti mér. Fann ég hvernig hjartað tók kipp er ég uppgötvaði í hvílíkri hættu ég var.
Hefi hlaupið einu sinni - rólega eina 15 kílómetra - og IT-bandið spilar á mig og þess vegna reyni ég að slaka á því með teygjum. Löpp upp á borð og þokkafull lendarteygja með mjaðmaskaki.
Hefi skráð mig í utanvegahlaup á laugardaginn - mun ekki hlaupa neitt fyrr en þá. Eftir hlaupið verður staðan metin og reynt að svara spurningunni: Er hlunkur tækur í Laugaveg? Held þó áfram að hjóla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.