24.4.2009 | 18:59
Föstudagur - Hjólari á púða
Í fríi í dag og fyrir hádegi fór ég út að hjóla. Hafði einsett mér að hjóla í meira en eina klukkustund. Það var kalt svo ég bjó mig vel. Fór í tvennar buxur, margar peysur og vindjakka. Hjólaði fyrst út á Álftanes, þá í áttina að Straumsvík - því miður var stígurinn ekki fullgerður svo ég sneri við - og að lokum í áttina að Kaldárseli. Stundum fór ég hægt og stundum hratt. Allt eftir því hvernig vindurinn blés, í bakið og á móti. Samtals hjólaði ég 28 kílómetra á 1:21 klst.
Undir lokin á hjólatúrnum kom ég við hjá skósmið sem hefur sérhæft sig í innleggjum og slíku. Sagði honum frá fótameinum mínum. Hann setti mig á bretti og lét mig ganga þar berfættan. Sagði rétt að ég væri með innhalla og sá að á göngu minni kæmi brot á hásin vinstra megin - það skýrir þann eilífa verk sem ég hefi haft þar. Hann lét mig síðan stíga á mottu er sýndi hvernig þungi færðist til milli ilja. Kom í ljós að meiri þungi væri á vinstri fæti en slíkt er vísbending um að sá fótur væri styttri. Þá mældi hann hvort fætur mínir væru mislangir, og það reynist svo - sá vinstri er styttri. Til að vega upp á móti því hve mislangir mínir stuttu fætur eru og kann að vera bót meina minna settum við 7 mm púða í vinstri skó.
Á morgun mun ég hjóla og hlaupa. Sjáum svo til hvort púðarnir séu að gera sitt gagn. Vonandi!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.