23.8.2008 | 13:15
Laugardagur - Þriðja hálfa maraþonið
Þreytti mitt þriðja hálfa maraþon rétt í þessu. Tíminn var 1:53:58 og hlaupatakturinn, að jafnaði, 5:21 mín/km. Hann sveiflaðist mjög mikið frá 4:45 og 6:53. Í upphafi hlaups var markið sett hátt, hetjan ætlaði sér að hlaupa á 1:40 klst. og til þess hefði hlaupatakturinn átt að vera, að jafnaði 4:45 mín/km, en fljótlega kom í ljós að ég myndi ekki ná því - ætlaði að bæta minn síðasta tíma um þónokkrar mínútur en var langt frá því. Ég hef áður hlaupið hálft á 1:49 (2003) og 1:47 (2008). Á einum stað á leiðinni - upp brekkuna þegar komið var af hafnarsvæðinu - þvarr mér þrek og ég gekk, það var þegar takturinn fór í næstum sjö mínútur með kílómetrann. Svo þegar ég kom upp brekkuna þá vissi ég að aðeins væri hlaupið niður á við og á jafnsléttu og varð léttari í skrefi.
Eitt var alveg ótrúlegt en það var þegar kappinn sem varð í fyrsta sæti mætti okkur áhugamönnunum. Hann þaut áfram og virtist ekkert hafa fyrir þessu.
Núna eftir hlaupið er líðanin ágæt - um stutta stund, í upphafi hlaups, fann ég fyrir verk í hásin og sköflungi en það hvarf. Annars er núna aðeins þreytuverkur í hælsbót sem vonandi hverfur fljótt. Í hlaupinu gerð ég mér far um að stoppa á drykkjarstöðvum, fékk mér vatn og orkugel; ef ég hefði ekki stoppað svo lengi við það hefði tíminn kannski orðið betri en efa það. Þá hefði engin orka verið til að hlaupa. Þá tókst mér að sækja fallega og stóra blöðru og ætla ég að láta hana alveg vera.
Á morgun verður farið í sund og svo haldið áfram að æfa og kannski kemst ég einhvern tímann á þeim tíma sem ég ætlaði í dag.
450. sæti af 1264.
111. sæti af 207 í aldursflokki 40-49 ára.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.