4.6.2008 | 17:15
Miðvikudagur - Hlaupið í hitapotti
Þar sem garmurinn fór í gang á ný og ég tók gleði mína varð hetjan að fara út að hlaupa og nú skyldi hlaupa átta km skv. áætlun, jafnt og þétt: 5:265:14 mín/km. Ég fór, eins og önnur íþróttamenni, á frjálsíþróttaleikvanginn Laugardalsvöll. Hitinn var sá sami og í gær, um 30°C, en nú var ég betur búinn. Kom við í búð og keypti hálfan annan lítra af vatni, tók með mér handklæði til að þurrka svita ótrúlega vont þegar svitinn rennur í augun og var í íþróttabol (í gær var ég ber að ofan og roðnaði ögn á öxlum og baki). Ég hljóp utarlega, þannig að hver hringur var næstum 500 metrar, og eftir þrjá til fjóra hringi gerði ég hlé á hlaupi: þurrkaði svita, fékk mér að drekka og teygði. Tók nokkurn tíma að stilla hraðann, eins og alltaf fór ég aðeins of hratt í upphafi. Það að hvíla svona í hitanum held ég að sé af hinu góða og skýrir kannski lágan púls (141), nema ég sé að komast í gott form. Eftir þetta hlaup mitt teygði ég vel og vandlega. Það brakaði í hálsinum og er það góðs viti eitthvað að losna um þetta allt saman. Þegar ég svo kom heim á hótel fór ég í kalda útisturtu til að skola af mér svita og lagðist svo í kalda laugina til að láta vöðvana jafna sig. Hélt svo áfram að teygja þegar ég var lagstur á bekkinn. Annars eru það svo að eftir svona hlaup þá fæ ég verk í hægri rasskinn og veit að það eru hinir stuttu vöðvar sem eru angra mig. Ég verð að teygja betur á þessum skröttum.
Annars eru hlaupin svona:
1. júní 8 km 51:38 mín 6:25 mín/km 134 púls (á götum úti)
3. júní 8 km 46:00 mín 5:43 mín/km 155 púls (íþróttavöllur)
4. júní 8 km 41:51 mín 5:12 mín/km 141 púls (íþróttavöllur)
Skv. áætlun skal hvílt á morgun, fimmtudag, en á föstudaginn eru það 6,5 km rólega en næstum 20 km á laugardaginn. Við skulum sjá til hvað verður gert með hið langa hlaup. Veit að heima á Íslandi væri ég ekki í vanda með að hlaupa þessa vegalengd en hér í hitanum kann það að vera örlítið erfitt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.