10.5.2008 | 20:39
Laugardagur - Langt hlaup í 1. viku
Dagurinn var fullskipaður. Varð að taka þátt í ráðstefnu eftir hádegi og svo var búið að ákveða að borða kvöldmat - að vísu er alltaf borðaður matur á þessu heimili en nú áttu allir í fjölskyldunni að sitja við borð og borða - og það er ómögulegt að hlaupa með fullan maga af mat. Tek þó fram að það endaði svo að aðeins ég og kvendið borðuðum saman, dóttirin koma síðar - var að leika sér með vinkonu sinni - og drengurinn var ókominn af fótboltaleik.
Er málum var svo háttað var aðeins um eitt að velja, fara út snemma morguns og hlaupa, eins og æfingaráætlunin bauð, rólega næstum þrettán kílómetra. Hlaupið var auðvelt og ég fór um bæinn eins og mér var boðið; hefðbundna leið út og út eftir, upp og niður brekkur og heim. Ég var búinn að hlaupa veglengdina nokkru áður en ég kom heim svo ég gekk bara rólega. Hlaupatakturinn var, að meðaltali, 5:41 mín/km en átti að vera nálægt sex.
Í morgun gerði ég mér far um að hlaupa beinn í baki, hið minnsta passa mig og kasta höfðinu aftur. Allt gert í þeirri von að laga verkinn í öxlinni og það gekk eftir. Vísu er einhver verkur í mjöðm og nú er bara að teygja vel á lendarvöðvum og því svæði.
Næst verður hlaupið á mánudaginn og þá teknir þrír sprettir hraðir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.