Sunnudagur - Loksins innan marka

Fyrsti dagurinn í 16 vikna æfingaráætlun fyrir Reykjavíkurmaraþon rann upp, hlýir vindar blésu, og ég fór út og hljóp af stað. Fyrir mér lá að hlaupa rólega einar 4 mílur eða 6,44 km og hlaupatakturinn á bilinu 6:01-6:14 mín/km. Þetta tókst mér og ég reyndi að halda aftur af mér - og vera ekki graður eins og konan í sundlauginni sagði þegar menn voru að rekja hlaupasögur. Fáir voru á ferli en er ég hlaup göngustíginn að baki Álfaskeiði kom Steinn þríþrautarkappi á fleygiferð á hjólinu.

Þegar hlaupi lauk fórum við dóttirin í sund og fyrir valinu varð Árbæjarlaug, sem er að vísu langt frá heimilinu; þar teygði ég og hitti aðra hlaupara sem voru að koma úr löngu helgarhlaupunum. Þar skiptust menn á sögum og hve erfitt það getur verið að hlaupa rólega og það var þá sem konan kenndi óhemjuháttinn við greddu sem er alveg ágætt.

Lesendum hefi ég lofað bol- og armbeygjum og skal þeim til upplýsingar tilkynnt að nú, þegar þetta er skrifað, nokkrum klukkustundum eftir hlaup og sund; að í valnum liggja 50 bolbeygjur og tíu armbeygjur. Skal ég fúslega viðurkenna að armbeygjurnar voru mjög erfiðar.

Á morgun verður hvílt en svo mun ég hlaupa hægt 8 km á þriðjudaginn (6:05-5:52 km/mín). Einnig skal tilkynnt að ég hefi skráð mig í Flugleiðahlaupið á fimmtudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband