25.12.2007 | 16:38
Jóladagur - Morgunhlaup á morgni jóladags
Það var sofið fram eftir í morgun; rumskaði þó þegar einhver setti trukkinn sinn í gang en sofnaði aftur. Við fórum á fætur um kl. 10 og ég ákvað að fara út að hlaupa áður en haldið yrði í matarboð hjá bróður mínum. Úti var jafnfallinn snjór og kom sér vel að eiga keðjur. Á leið minni sé ég að fleiri hlauparar höfðu farið um stígana í Hafnarfirði, hitti einn hlaupara á leiðinni. Þekki hann ekki en hef séð hann oft - og það löngu áður en ég fór að hlaupa. Las grein um hann í blaði fyrir mörgum árum. Fullorðinn maður sem hleypur í öllum veðrum. Leið mín lá út að Suðurbæjarlaug en stytti aðeins þegar ég nálgaðist heimilið - fór ekki út að Actavis, heldur fram hjá Nóatúni og heim. Samtals voru þetta u.þ.b. 8 km á 40 mínútum. [Tölur ekki staðfestar, hef ekki garminn hjá mér. Er hjá mágkonu minni bíðandi þess að næsta hangikjötsát hefjist.] Hefði ég farið fyrr af stað - ekki sofið svona langt fram eftir og ekki bundinn af því að fara í mat hjá bróður mínum - hefði ég farið lengri. Teygjur voru lélegar þegar ég kom heim. Varð að rjúka í sturtu og í matarboðið. Reyndi þó að teygja aðeins á kálfum og lærum - en það var nú meira gert til málamynda.
Hitti mág minn í gærkvöldi, er við vorum báðir útkýldir af kjöti, og hann sagðist til í að hlaupa með mér í Gamlárshlaupi ÍR. Væri jafnframt búinn að hlaupa einu sinni. Þá er best að búa til æfingaráætlun fram að hlaupi. Í dag eru sex dagar í hlaup. Bráðabrigðaáætlun, sem stenst vonandi ef veður verður skaplegt og kvefið og ónotin í hálsinum séu ekki upphaf neins. Hleyp tvívegis - 27. og 28. desember - tíu km fyrri daginn og sjö þann síðari. Athuga fyrri daginn hvort ég næ að halda hlaupatakti undir 5:00 km/mín og þá létt hlaup daginn eftir. Hvíli laugardag og sunnudag. Fer annan hvorn daginn í Sundhöll Hafnarfjarðar í heita pottinn og læt þar bununa ganga á alla auma staði.
Jæja, nú meira hangikjöt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.