Frjádagur - Hlaupin slaufa með kvefi

Eins og oft áður gat bráðlátur ekki beðið og fór út að hlaupa. Hefi lesið, m.a. hjá ritara maraþonunga, að gott sé að hlaupa til að hreinsa kropp sinn af kvefsins óþvera; spýta hráka og slími. Með þetta í huga fór ég út en engar voru spýtingar. Um tíma var ég þó næstum hættur við; haglél gekk yfir Hafnarfjörð en ég sagði við sjálfan mig: aungvan eymingjagang! og beið á tröppunum þar til élið lyki sér og garmurinn náði sambandi við gervihnettina sem fylgjast með mér. Ákvað að fara ekki hratt hálffullur af kvefi, þ.e. halda takti við 6 mínútur á kílómetrann. Þetta gekk eftir og ég hljóp slaufu eins og má sjá á þessari mynd sem reyndist rétt um 7.3 km., þar var að finna eina langa brekku, upp Hringbrautina. Breytti skyndilega hefðbundinni leið, ætlaði að fara litla hringinn en með hlaupagarm við arm er maður frjáls! Púlsinn var lár og er það gott, fer lækkandi. Þegar ég kom heim reyndi ég að gera allar þær teygjur sem mér hafa verið boðaðar, og sem áður hló heimilisfólkið. Reyndi einnig að halda hverri teygju í hið minnsta í tvær mínútur eins og ég ég las á meiðslasíðum hlaup.is.

Næst verður hlaupið á morgun laugardag eða sunnudag. Vonandi slær oss ekki niður við þessi hlaup og leggst aftur í eymingjans kvefpest. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband