Laugardagur - Þriðja hlaup og laug

Ætlaði varla að nenna út, en eftir að hafa kveinað ögn yfir fótameinum, og sagt við sjálfan mig: "þetta lagast nú ekki með hreyfingarleysi", og vitandi að veðrið ætti eftir að versna síðar í dag, beitti ég fyrir postulahestana, stakk mér í þröngva sperrileggjabrók, þrjár þunnar peysur - yzt skrýddur verðlaunatreyju sonar frá frjálsíþróttaskeiði hans, setti húfu á kollinn og vettlinga á höndur; og fór af stað. Leiðin var hin sama og áður: Litli hringurinn og út að Actavis. Var aðeins lengur á leiðinni og það er nú allt í lagi enda reynandi að fara hægt yfir. Minnka þannig álag á fætur. Þetta var þó ekki slæmur tími, 41 mínúta í rokrykkingu. Fann þegar þriðjungur var eftir að ég gerðist léttari í spori og vonandi er allt að koma.

Þegar hlaupi lauk fór ég með dóttur í Sundhöll og þar skiptumst við á að djöflast í lauginni, bæði með froskafit, og vera í heitum nuddpottum. Hefi lesið einhvers staðar að fótaæfingar með sundfitjum væru hlaupamanni hollar. Á meðan hún stökk af bretti var ég úti í miðri laug og hélt mér á floti með fimum fótahreyfingum. Í heita pottinum voru sömu staðir og áður nuddaðir, einnig reynt að teygja.

Eftir hádegi fór ég í höfuðstaðinn, kom við í íþróttaverslun og keypti mér hlaupavettlinga. Þeir eru þynnri en mínir vetrarvettlingar, sjáum svo til hvernig þeir munu reynast. Næsta hlaup verður á Mána- eða Týsdegi. Ætla mér að hlaupa í Hjartadagshlaupi og þarf að búa mér til æfingaráætlun. Annar var vikan svona: Hljóp í næstum tvær klukkustundir og fór, skv. lauslegri mælingu, 14 kílómetra. Því ætti næsta vika að vera tvær klukkustundir og tólf mínútur að lámarki. Ef ég hleyp þrisvar ættu það að vera tvö hálftíma hlaup og svo 10 kílómetra tímataka á Sunnudegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband