Týsdagur - Út fór ég

Ég fór út að hlaupa; þú ert maður sem getur aldrei beðið! Markmiðið, þessa vikuna, er, að minnsta kosti, þrjú hlaup og hvert um sig skal standa lengur en í hálfa klukkustund. Ef allt gengur að óskum - nú hið klassíska; ég án meiðsla (og hljóma nú sem frækinn knattspyrnukappi - þá verður langt hlaup á sunnudaginn. Leiðin sem ég fór er hinn hefðbundni litli hringur, heiman frá mér út að Hrafnistu, gegnum miðbæinn og upp með Læknum, fram hjá Kaplakrika og heim fram hjá Nóatúni. Leið sem er, skv. Borgarvefsjá, næstum sex kílómetrar og ég hlaup á 33 mínútum. 

Púlsinn var hár og þá helst vegna þess að ég gaf í þegar ég fór upp aflíðandi brekkur, sem eru nú varla brekkur. Álagsstaðir, hásin og hné, á sitt hvorum fæti voru að mestu án verkja. Þegar ég kom heim reyndi ég að teygja á þessu öllu af skynsemd (og alltaf er hlegið af mér fyrir stirðleika). Áður en ég fór af stað bar ég hitakrem á líklega verkjarstaði en gætti ekki að því að ég svitna á hlaupum. Svitann þurrka ég með höndum og þær eru mengaðar af kremi. Leifar af kreminu blandast svitanum er rennur í augun og ég sé ekki neitt. Þarf að fá mér húfu til að hindra að svona gerist nú aftur. Átti húfu sem ég notaði á hlaupum. Hún var ágæt en full þykk og svitnaði ég vel. Sá þá vel saltútfellingar úr eigin svita.

Meðan á hlaupinu stóð velti ég því fyrir mér hvort ég ætti nú ekki, á næstu dögum, að mæta í tækjasal Íþróttahúss Háskólans og gera styrkjandi æfingar. Þá helst fyrir fætur og munu þá aumingjaverkirnir líklegast hverfa. Reyni á laugardaginn og fer svo í gufu á eftir.

Næsta hlaup er á Þórsdegi, einnig í hálftíma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband