6.9.2007 | 22:08
Þórsdagur - Út þrátt fyrir leti
Ætlaði varla að nenna út að hlaupa en þegar líða tók að kvöldi og ég búinn að taka til og ryksuga - vitandi vits að teygja á kálfum, mýkjandi hásin, sitjandi á hækjum mér gætandi þess að lyfta ekki iljum frá gólfi (ó hvað það getur verið erfitt nema haldandi í eitthvað, en gengur betur finnst mér, og húsfrúin hlær) - var ekki hægt fresta lengur. Veit ekki hvort það var sjálfsblekking en þetta, að teygja á, virðist bæta hægra hnéð sem hefir verið stirt og stíft (sjá skrif mín fyrir Reykjavíkurmaraþon). Ákvað að fara litla hringinn sem er rúmlega fimm kílómetrar og reyna að fara hægt yfir; allt gert til að draga úr álagi. Það tókst að mestu en gengur illa að fara hægt.
Nú, þegar þetta er skrifað tveimur klukkustundum eftir hlaupin og ég ligg uppí rúmi, búinn fyrir all löngu að teygja, þá helst á hnésbótarsin (e. hamstring) í dyragætt er líðan ágæt. Ætla þessa vikuna að fylgja æfingaráætlun. Næsta hlaup er á laugardaginn og þá skal fara létt yfir í hálfa klukkustund og mun ég taka hjólandi dóttur með. Hún hefur kvartað yfir því að ekkert hafi verið hlaupið upp á síðkastið. Þá næst á sunnudaginn í þrjá stundarfjórðunga.
Ákvörðun: Næsta tímatökuhlaup verður Hjartadagshlaupið 30. september og tek Íslandsmeistarann í róðri með.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.