24.8.2007 | 23:54
Frjádagur - Púls hár og kenni pylsum um
Þessa dagana hefi ég verið í fríi, dóttirin er að byrja í skóla. Okkur til skemmtunar þvældumst við um bæinn, fórum niður í líflegan miðbæ Hafnarfjarðar - þar sem sumir mótmæla háhýsum - og ég hélt á dúkku dótturinnar allan tímann. Við stoppuðum á Víðistaðatúni og þar skipti hún um föt á dúkkunni en ég teygði á kálfum og hásin (vonandi verður þetta ekki að vana hvar sem ég stoppa, annars er það svo sem örugglega allt í lagi). Kannski er ég allur að koma til, það er að losna um hnéð stirða - ætli PENZIN-ið sé að virka.
Þá að hlaupi dagsins. Ætlunin er að hlaupa þrisvar í vikunni og ég fór út, að þreyta hlaup númer tvö, þegar tvær stundir voru liðnar frá kvöldmat. Dóttirin fékk að velja kvöldmatinn og valdi pylsur; ég át tvær. Allan tímann, meðan ég hljóp, var eins og bolla væri á ferð (sjá fyrri færslur um grísahakk og bolluát fyrir hlaup). Rop og aftur rop! Var því nokkuð þungur á mér en rættist úr þessu þegar ég var hálfnaður með hlaupið, teygjur áður en komið er að göngunum við Lækinn. Gerði mér það einnig til uppbyggingar að gefa í þegar ég hljóp upp brekkurnar. Púlsinn var hár og kenni pylsum um.
Þegar ég kom heim tóku við teygjur og alltaf hlær húsfrúin þegar ég reyni mitt besta til að auka liðleika minn. Dóttirin, hins vegar - og að sjálf sögðu -, styður mig og gerir sömu teygjurnar og ég. Er þá stundum deilt um þokka, stíl og jafnvægi. Nú þegar þetta er skrifað, hálfri þriðju stund frá hlaupi, er enginn stirðleiki kominn í hné, hásin er þokkaleg og brátt verður PENZÍN smurt á auma staði áður en ég fer í bælið. Næsta hlaup verður á sunnudaginn, sama leið, en engar pylsur áður.
Hitti kunningja minn á göngunni í dag, er ég bar dúkku og dúkkuföt. Hann þreytti sitt fyrsta maraþon um daginn og hljóp á nærri fjórum klukkustundum. Nú þýðir ekkert annað hjá mér en að gera hið saman. Frændi minn gerði þetta líka fyrir nokkru og ekki get ég verið minni maður. Þarf að búa mér til áætlun, hún verður birt á þessari síðu síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.