Sunnudagur - Gamli hringurinn og Gangvirkið

Fór út um hádegisbil, en nennti varla, og hljóp í rúman hálftíma, 33 mínútur; skuldaði nokkrar mínútur. Fór gamla hringinn sem er um hálfur sjötti kílómetri. Stoppaði tvívegis og teygði á kálfum og hásin.

Á orðið auðveldara með að hlaupa út að "draugahúsi" á innan við 10 mínútum og til þess þarf að gefa í á Herjólfsbraut; þetta hefir verið eitt af markmiðunum frá því ég hóf hlaup að nýju. Næsta markmið er að komast út að bakaríi á horni Strandgötu og Lækjargötu á innan við 15 mínútum; það ætti að takast mjög fljótlega, næst verða það gatnamótin á Austurgötu og Lækjargötu eða Hverfisgötu. Allt verður þetta að gerast innan há- og lámarka púlsmælis.

Finn fyrir þreytu í hásin. Gætti mín á að hita hana áður en ég fór af stað, notaði til þess hitapoka, teygði vandlega á leiðinni og aftur þegar ég kom heim.

Á leiðinni var ég með tónhlöðunginn, eins og oft þegar ég hleyp einn, og hlustaði á Gangvirkið sögu eftir Ólafs Jóhanns Sigurðssonar frá árinu 1955 í upplestri Þorsteins Gunnarssonar. Söguna sótti ég á hlaðvarpssíðu RÚV. Frábært framtak hjá þeim að gera efni aðgengilegt; finnst þó að nýir þættir mættu vera þar, er þó alls ekki að lasta það sem er komið. Sagan er skemmtileg ádeila á íslenskt samfélag og á alveg við í dag; en samt finnst mér sveitarómantíkin - eða hvernig Páll Jónsson - horfir heim í sveitina hallærisleg (veit nú samt ekki hvað ég er að segja hér getur verið að ég breyti því og kann að vera að það sé hluti af ádeilunni).

Hér í lokin koma tölur fyrir vikuna og undangengnar vikur. Þessi vika - nr. 31 - ber af. Í fyrsta lagi, tók þátt í tímatökuhlaupi, hljóp á betri tíma en ég átti vona á - 5 km á 24:10, og braut 30 km múrinn. Hvað gerist í næstu viku á eftir að koma í ljós. Kem ég mér út í sundlaugina í Garðabæ? Það þýðir að ég þarf að hætta í vinnunni klukkan fjögur og leggja af stað heiman frá mér klukkan fimm; það yrði nú bara ágæt upphitun.

31: 5 - 3:14 - 32,9 - 3.284

30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344 

29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260 

26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495 

25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband