Færsluflokkur: Hlaup
2.8.2007 | 22:35
Þórsdagur - Vatnsmýrarhlaup
Lauk hlaupi! Tíminn var 24:10, síðast 22:01 og þá í miklu betra formi. Nú varð ég í 87da sæti af 217. Síðasti kílómetrinn var erfiður en þegar ég sá endamarkið gaf ég í. Skrokkur var í ágætu formi; hásin í lagi en verkur í herðum. Sá nokkra sveitunga mína. Dóttir og móðir komu með og horfðu á. Nú er næst að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoni þann 18. ágúst.
Spurning hvort ég æfi eitthvað á morgun eða hvíli. Sé til þegar kvölda tekur.
Hlaup | Breytt 3.8.2007 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2007 | 22:19
Týsdagur - Næstum klukkustundarhlaup
Ég hljóp í 58 mínútur (áttu að vera 60 mínútur) og vegalengdin, skv. Borgarvefsjá 9.3 km (hér kann að skeika einhverjum hundruðum, vonandi vantar á). Púls var innan marka í 43 mínútur og að meðaltali 157; mér er ætlað að hlaupa innan 142-164 (tekið skal fram að þetta er gömul mæling).
Hlaupið fór þokkalega fram. Ég ætlaði mér að fara rólega og reyndi það. Þar voru nokkrar brekkur og ég reyndi að halda hraða upp þær og fylgdist spenntur með hvort færi yfir hámarkspúls. Á leiðinni sá ég nokkra hlaupara og göngufólk. Veðrið var með ágætum.
Ef engir verkir á morgun þá tek ég þátt í Vatnsmýrarhlaupi. Annars er sumarfrí á enda og vinna hefst á morgun.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2007 | 23:21
Mánadagur - æfingaráætlun flýtt um einn dag
Hljóp í 21 mínútu, svo boðuðu Polar-menn. Tókst ekki að hlaupa þá 4 km sem var lagt upp með en fór 3.8 km. Veit að það kemur brátt! Ég fór hratt yfir og púlsinn hár; sérstaklega á beina kaflanum á Herjólfsgötu og svo þegar ég hljóp upp Reykjavíkurveg; enda hét æfingaráætlunin "Hilly Run".
Í gærkvöldi mældi ég mitt Own Index - súrefnisupptaka o.s.frv. Það er 40 og hefur hækkað um einn frá síðustu mælingu sem var í maí. Skv. þessu þá er ég "Moderate" - 39-43 - og þarf að leggja meira á mig til að verða "Good" - 43-48. Sjáum til í næstu mælingu eftir fjórar vikur.
Þegar heim var komið teygði ég og fylgdi ýmsum leiðbeiningum; lifi í þeirri blekkingu að liðleiki minn aukist á hverjum degi. Gerði eins og unglingurinn, íþróttamennið sonurinn, hélt teygjum í eina mínútu og reyndi að slaka á í kroppnum. Held að ég hafi verið allt of oft spenntur þegar teygt.
Fór til sjúkraþjálfara í morgun og hann átti við bæði öxl og hásin. Eftir upphitun var sett rafmagn og leysir á báða staði. Finn að þetta hefur áhrif. Ég spurði aftur, eins og segir í eldri færslu, hvort væri í lagi að hlaupa með bólgna hásin. Hann segir í lagi ef enginn verkur er meðan á hlaupi stendur. Svo er ekki því held ég áfram.
Ef mér tekst, eins og áætlun boðar, að hlaupa í klukkustund á morgun - án eftirkasta - þá tek ég þátt í Vatnsmýrarhlaupinu á Þórsdag (fimmtudag). Æfingin á morgun er "Long Run" og ætla ég að halda aftur af mér og lulla.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2007 | 22:10
Morgunhlaup í rigningu og vikulyktir
Fjórða hlaupið í þessari viku. Áttu fyrst að vera þrjú en urðu fjögur. Vonandi kemur það manni ekki í koll að vera svona bráður og hvatvís. Sem áður fór dóttirin með, sami hringur og áður en breytt leið í upphafi og lok, og það var hennar verk.
Hlaupavikan var þokkaleg, vikan þar á undan var aðeins upphitun og ekki marktæk. Spurning hvernig næstu vikur verða og hvort ég verði kominn í nægilega gott form til að taka þátt í Maraþonhlaupi þann 18. ágúst. Í þetta skipti verður hvorki reynt við hálft né heilt maraþon, aðeins 10 km. tímatökuhlaup.
Svo gæli ég við að taka þátt í Vatnsmýrarhlaupi 2. ágúst. Lesendum til fróðleiks - sem ég held að séu nú engir - þá tók ég þátt í þessu hlaupi árið 2003. Varð í 32. sæti af 83. Hlaup kílómetrana 5 á 22:01. Og veit að mér mun nú ekki takast að verja það sæti eða ná í mark á þessum tíma. Kemur í ljós.
Hér koma tölur (sem áður í þessari röð, vikunúmer, fjöldi hlaupa, samtals tími, vegalengd og brenndar kaloríur):
30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344
29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260
26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495
25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2007 | 16:59
Þriðja hlaup vikunnar
Þriðja hlaup vikunnar var þreytt í gær; sama leið og áður, 5,6 km. Fyrr um daginn fór ég til sjúkraþjálfara og hann átti við öxl og hásin. Hin aumu svæði voru hituð, nudduð og laserskotin; tímanum lauk svo með því að hálsinn var settur í togvél. Ég spurði hvort hvort væri í lagi að hlaupa með auma hásin. Hann svaraði því til að það væri í lagi meðan ég væri ekki með skerandi verk. Hlaupið gekk að óskum og á beinu köflunum, eftir að ég var orðinn heitur, jók ég hraðann og fann ekkert fyrir því. Dóttirin fór með á hjólinu og við stoppuðum nokkrum sinnum til að teygja. Fyrst hjá leiksviðinu á Thorsplani og svo hjá Lækjarskóla. Annars var hún oftast nær á undan mér.
Í síðustu færslu sagði ég að virkri hvíld yrði beitt á hvíldardegi. Ég fór í sund og synti 200 metra. Næst þegar ég fer ætla ég að synda þrjú hundruð metra. Er sundi lauk fór ég í heitan pott og nuddaði aum svæði og þá sérstaklega hásin.
Á morgun, sunnudag, verður hlaupið í 30 mínútur og skulu það vera léttir sprettir.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2007 | 23:03
Bolla á ferð
Fór, stuttu eftir hádegi, minn rúmlega sex km. langa hring einn og yfirgefin! Dóttir var á róló. Við ætluðum út um morguninn en vorum beðin að passa barn nágrannans svo öllu seinkaði. Hafði um klst. áður en hlaup hófst borðað afgang af svínahakksbollum og verður þeim kennt um hægan gang og rop á rölti, því varla var þetta hlaup.
Annars var allt í lagi, engir verkir í kropp. Eru skórnir að sanna sig og niðurstigningin rétt. En eins og segir að ofan, þá var ég þungur á mér; bolla borðaði bollur! Þegar heim var komið teygði ég og fylgdi þá bæði bók og ráðleggingum á íslenskri hlaupasíðu. Enn er ég þó stirður en vonandi losnar um og vöðvar lengjast.
Nú er spurningin: Fer ég oftar en þrisvar sinnum að hlaupa í þessari viku? Finnst það líklegt, heilir fjórir dagar eftir. Kannski ætti ég að fara í sund á morgun og reyna að synda, ekki liggja bara í pottum. - Hvað sér maður á síðum annarra, kallað "aktíf" hvíld. - Hleyp svo á frjádegi og sunnudegi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 18:08
Hlaupið að morgni
Í síðustu viku hljóp ég tvívegis og á nýjum skóm, hafði einnig verið teygður og stunginn af sjúkraþjálfara; öxl, háls og hásin. Beið alltaf spenntur að kæmi verkur en ekkert gerðist, sem betur fer.
Í þessari viku verður hið minnsta hlaupið þrívegis og ætli verði ekki miðað við 40 til 50 mínútna hlaup í hvert skipti.
Í morgun hljóp ég með dótturinni sem var á hjóli; hún rak mig af stað. Nennti ekki út í gærkvöldi eftir siglingu á Faxaflóa að leita hvala. Við fórum snemma út og samtals hljóp ég í næstum 45 mínútur með hléum til að teygja og toga. Heimsóttum móðurina í bókhaldinu, Einar langa, sem gerir nú við pústið á bílnum í enn eitt skiptið, og komum við í hjólabúð (og þar spurðum við - lesist: ég - kjánaspurninga því bremsan á hjóli stúlkunnar var föst).
Leiðin var hefðbundin og ég gaf í á nokkrum stöðum, beinu köflunum og það var allt í lagi. Verð þó að viðurkenna að ég var nú ekki nógu duglegur að teygja þegar ég kom heim. Gerði þó þær helstu. Lofa að gera betur á morgun.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)