Færsluflokkur: Íþróttir
14.7.2009 | 00:05
Mánudagur - Loksins sprettir á Kapla
Ég byrjaði daginn á því að heimsækja sjúkraþjálfarann og fékk nýtt sportteip á il - áfram er ég með Kvennahlaupsbleikt teip. Hann sagði mér að hvíla teygjur á il, láta teipið með japanska munstrinu gera sitt. Ég hlýði kalli kalls.
Er kvölda tók varð ég að fara út og gera eitthvað. Styttist í "Laugavegshlaup" og ég varð að kanna hvort ég væri tækur til að gera eitthvað. Fyllti því vatnsbrúsa og tók hjólafák fram og er ég var búinn að hjóla örlítið um bæinn afréð ég að fara upp á Kapla og hlaupa þá spretti er hlaupaprógrammið bauð mér að gera - átta sinnum fjögurhundruð á góðum hraða með 200 hundruð metra skokki á milli. Afréð einnig að vera ekki með neinn glennugang - halda mig innan þeirra hraðamarka er mér var skipað. Hver sprettur átti að vera á bilinu 4:36-4:28 mín/km og voru þeir með vaxandi hraða og að meðaltali 4:31.
Á morgun, skv. plani er rólegt 6,5 km hlaup og svo verður hvílt fram að hlaupinu langa. Hefst nú taktísk pæling og markmiðasetning.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2009 | 23:27
Sunnudagur - Vika til stefnu
Ég hjólaði fyrir nesin fjögur í kvöld, sem er svo sem ekkert merkilegt. Reyndi þó eitt nýtt á þessari ferð minni. Ég festi mig við pedalana á fáknum, sem er að vísu áhættusamt eftir að hafa dottið út á hlið eitt sinn er ég var stopp á ljósum - var búinn að gleyma að ég færi bundinn í báða skó og missti allt "kúl" er ég valt ósjálfbjarga út á hlið. Þegar mér fannst vanta á hraðann þá togaði ég upp og stundum fór ég í þyngri gír. Þetta reyndi ég einna helst á beinum fáförnum vegum og í brekkum.
Nú er vika í langa hlaupið og enn er seyðingur, og stundum verkur, undir ilinni. Er þetta er skrifað er ég með mulinn klaka á bátti. Fylgi hér ráðleggingum af síðu hlaupamanna. Ætla að ná tali af sjúkraþjálfaranum mínum í vikunni og biðja hann um að teipa mig með flottu íþróttateipi - þau heita einhverju traustu japönsku nafni og svo eru þau svo flott á litinn. Fékk slíkt teip í vikunni og þegar ég tók það af, það var svo slitið, þá kom verkurinn aftur. Hvort það var ímyndun eða ekki skal ósagt látið.
Ég hljóp með öðrum Laugavegsförum í Heiðmörk í gær. Þetta var rólegt 16 km. hlaup. Il var ekki með neina stæla og fín er hún var orðin heit. Vonandi verður það eins næsta laugardag.
Annars ætlað ég að hlaupa minna í vikunni, hvíla fyrir langa hlaupið. Þess heldur hjóla og hvíla, og búa til einhverja áætlun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 22:57
Þriðjudagur - Loksins hlaupið
Loksins fór ég út að hlaupa; reyndi skrattans ilina sem hefur verið að angra mig í tvær vikur. Mér er sagt að ég eigi bara og teygja og toga. Hljóp rólega átta kílómetra svo mun ég reyna aftur á morgun - hleyp þá aðeins styttra en ætla að fara aðeins hraðar yfir.
Annars er ég bara hóflega bjartsýnn fyrir hlaupið mikla þann 18. júlí.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 22:36
Mánudagur - Hljóp ei en hjólaði þó
Í gær, sunnudag, var ég með verk undir ilinni. Þreyta eftir mitt langa næstum 36 kílómetra hlaup. Ákvað þess vegna að hvíla í dag. Annars áttu að vera sprettir, sex áttahundruð á góðum hraða; mitt uppáhald - ég meina það. Sé til hvað ég geri á morgun.
Annars hjólaði ég lengri leiðina til og frá vinnu. Fór bæði fyrir Arnarnes og Kársnes er lengir leiðina um næstum tíu kílómetra.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2009 | 18:44
Laugardagur - Sportleggur lengdi hlaup og er stirður nú
Dagskipunin hljóðaði upp á 35 km. hlaup. Vissi, að til að ná að hlaupa þessa vegalengd yrði ég að hlaupa af skynsemd og það yrði örugglega erfiðara þar sem ég var einn á ferð. Ég fór út klukkan níu, var þá búinn að borða tvær brauðsneiðar með osti og drekka tvo bolla af tei. Afréð að hlaupa i áttina að Helgafelli, bæjarhól Hafnfirðinga. Ná í ferskt vatn og síðan til baka um Lönguhlíð (er þó ekki viss um nafnið), fór svo línuveg að baki Ásfjalli, sem var mjög torfær, og þá hring kringum Ástjörn. Þá voru fimm kílómetrar eftir og hljóp ég þá víðsvegar um Fjörðinn.
Hlaupaáætlunin var í stuttu máli þessi: Ég skipti hlaupinu upp í sex sex kílómetra leggi. Ákvað að fá mér orku og drykk í hvert skipti sem ég kláraði sex kílómetrar. Gæta mig jafnframt á því að hlaupa ekki of hratt en hlaupatakturinn átti að vera á bilinu 5:52-6.05 mín/km. Að meðaltali hljóp ég hvern kílómetra á 5:53 mínútum og var á ferðinni í 3:27 klst. Ég drakk óvenju mikið enda var óvenjulega heitt.
Nú, þegar þetta er skrifað, er ég þreyttur í fótum og nokkuð stirður. Held að allt sé í lagi. Hér fyrir neðan er mynd af hlaupaleiðinni.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2009 | 19:18
Föstudagur - Morgunhjólatúr
Á meðan dóttirin var í fótboltaskóla hjólaði ég nesin fjögur. Komst þó ekki alla leiðina út fyrir Seltjarnarnes; því ég varð að sækja barnið klukkan tólf. Samtals voru þetta 46 kílómetrar á 1:52 klst. Púlsinn var, að meðaltali, 135 (70% álag). Hraðinn var meiri í upphafi en í lokin. - Gaman að sjá hvað það voru margir á ferðinni; skokkarar, hjólamenni og hlauparar.
Á morgun, laugardag, verður langt hlaup, 36 km. Hefi ekki enn ákveðið leiðina; best að vera sem mest utanvega.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 21:47
Fimmtudagur - Faðir og dóttir hlupu og hjóluðu
Ég og dóttirin fórum út fyrir kvöldmat. Ég hljóp og hún hjólaði með vatnsbrúsa í bakpoka. Æfing gærdagsins var í dag - frískir 6,4 km, hver þeirra hlaupinn á 4:57. Ég var dálítið þungur á mér og verkjaði aðeins í mjöðm - hefi ekki verið nógu duglegur að teygja. Stoppaði einu sinni til að drekka, var allt of mikið klæddur. Á morgun ætla ég aðeins að hjóla og svo verður langt hlaup á laugardaginn.
Leiðrétting. Í færslu gærdagsins var ritað: Miðvikurdagur. Á að vera: Miðvikudagur
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 23:03
Miðvikurdagur - Hjólað til liðkunar
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 11:54
Þriðjudagur - Miðnæturhlaup
þetta var í þriðja skipti sem ég hleyp þetta hlaup, og að sjálf sögðu vill maður alltaf gera betur. Fyrst hljóp ég þessa braut árið 2003 (51:45), mitt fyrsta tímatökuhlaup. Svo kom hlé í nokkur ár og ég mætti aftur í fyrra, 2008, þá náði ég mínum besta skráða árangri í 10 km. (47:05). Svo hljóp ég núna, 2009. Ekki er kominn opinber tími en skv. minni klukku, er ég setti af stað þegar ég fór yfir mottuna í mannþrönginni, fór ég vegalengdina á 46:52. Hlaupið tók á en var í sjálfu sér áreynslulaust. Ég var allan tímann að tína upp hvern hlauparann á eftir öðrum en hefði mátt gera betur þegar rýnt er í tölurnar.
Tölur eru helstar þessar. Púlsinn var 169 (173) svo hann hefur lækkað, en ekki mikið. Hlaupið fór ég með vaxandi hraða en það munar ekki miklu. Fór síðari hringinn á aðeins meiri hraða. Tölur í sviga eru frá því fyrra.
23:38 (23:16) - 5 km.
23:14 (23:16) - 5 km.
Þá kemur hlaupatakturinn sem er alls ekki nógu jafn.
4:53 (4:37) - aftarlega í mannþrönginni
4:45 (4:35)
4:45 (4:47)
4:42 (4:42)
4:31 (4:33)
5:02 (4:52) - drykkjarstöð
4:37 (4:35)
4:42 (4:51)
4:32 (4:45)
4:19 (4:11)
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 21:11
Mánudagur - Hjólaglanni missti fótanna en hljóp samt
Fyrsti dagur í viku sumarfríi og ákvað að fara út að hjóla fyrir hádegi. Fór hingað og þangað. Lenti í roki og rigningu, sól og logni. Götur voru hálar og garpur ekki varkár. Þegar ég kom heim, eftir að hafa farið inn í Kópavog og til baka, niður í bæ, fannst mér ekki nóg komið og varð að fara aukahringi um hverfið til að ná 30 km. Stakk út leið og fór hana nokkrum sinnum, lengdi og jók hraðann í hvert skipti, nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera. Því í eitt skiptið er ég fór um hringtorg við Skjólvang rann ég til og missti jafnvægið. Við það skrapaði ég fótlegginn og upphandlegg - ekkert alvarlegt. En nú, nokkrum klukkustundum síðar, er öxlin stíf og ég er ekki lengur örvhentur. Vonandi jafnar hún sig í nótt.
Samt sem áður fór ég út að hlaupa, það var líka áður en öxlin varð stíf. Hljóp rólega næstum 12 km og aldrei hefur púlsinn verið eins lágur. Á morgun er Miðnæturhlaup, aldrei að vita nema ég taki þátt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)