Lítið hjólað síðkastið

Nú er komið nýtt ár og ekkert verið hjólað lengi. Nældi mér í fyrsta flokkst berkjukvef og í mér urgar og surgar en sýklalyf leysa allan vanda. Vonast til að geta hjólað um helgina. Byrja hægt og rólega en svo verður tekið á því.

Föstudagur - Sofnaði eftir sund í sjöundu viku

Hetjuháttur Eldingarinnar heldur áfram, hverri einustu hindrun er rudd úr vegi og brautin er greið. Leiðtoginn, hið margfellda járnmenni, sagði eitt sinn á hlaupaæfingu hjá Fimleikafélaginu (svo fært sé í stílinn) að nú skyldi ég mæta á sundæfingu þegar haustþoni væri lokið. Búið væri að stofna þríþrautardeild innan Sundfélags Hafnarfjarðar, www.3SH.is. Nú væri bara að mæta - kynningarfundur í næstu viku og þangað kom ég með öðrum hetjum sem allar voru sundvanar. Teknar myndir af hetjum og menn beðnir að berja á brjóst sér og tilkynna allar þeirra fyrirætlanir. Þá var sagt að æfingar ættu að byrja brátt og verða árdegis, klukkan sex, og við verðum með frábæran þjálfara (sem er rétt).

Veiklyndur og áhrifagjarn, eins og þegar ég hjólaði af stað fyrir áeggjan leiðtogans, þá lét ég undan, sagðist ætla að mæta á bakkann. Vitandi að þetta yrði alls ekki þrautarlaust fyrir morgunsvæfan. Að vakna klukkan fimm að morgni, um hávetur í mesta myrkrinu, og hafa mig út úr húsi til að stinga mér í kalda laug og busla þar undir árvökulum augum þjálfara. Hópeflið og pressan var þvílík, engin undankomu leið - æ ég nenni þessu nú varla, og hlaupafélaginn í maraþoninu líka búinn að skrá sig. Gleymum ekki heldur hlaupasystrum mínum sem voru einnig komnar í flokka þríþrautarmenna. Eldingin mætti!

Sjöundu æfingarviku lauk í dag, föstudag, og þá, eins og á miðvikudaginn, synti ég á minn þokkafulla hátt allar sundtegundir - að vísu sleppti ég flugsundi sem var ekki boðið upp á og kemur örugglega brátt að. Mér er skipað eins og nokkrum öðrum í C-flokk gæðinga, þar busla ég fram og til baka, stundum með blöðkur og stundum ekki - en ekki hef ég fengið að prófa klofkútinn. Þar reynir maður ýmislegt, syndir á hlið, drillar og strýkur vatnið og spriklar fótum lárétt. Kjarkmiklir taka snúninga og klórskola vitin. Alltaf er ég að bæta mig og smá saman verð ég bestur. Kemst lengra og lengra. Í fyrstu viku náði ég rétt að synda 800 metra en í dag, og á undanförnum þremur æfingum, þá massaði ég tvo kílómetra. Þó skal viðurkennast að stundum er gott að komast að bakkanum æði andstuttur. Vitandi að brátt þurfa hin sönnu járnmenni í A-flokki gæðinga að fara að gæta sín.

Þetta tekur sinn toll, að vakna snemma. Mæti syfjaður á bakkann, vakna í kaldri lauginni, verða ótrúlega sprækur og svo um hádegi tekur að halla undan fæti. Kaffidrykkja og orkudrykkir ná ekki að halda mér ferskum. Er sem vansvefta ungbarnaforeldri. Athyglisbrestur á háu stigi gerir vart við sig, ég sofna í strætó á leiðinni heim (því ekki hef ég enn haft mig í það að hjóla til vinnu eftir þessar þolþrautir en viti menn það verður brátt). Kominn heim þá sofna ég yfir fréttum, og í kvöld var ágætt að sofna yfir Kastljósinu - fátt gerðist þar að ég held.

Á morgun fer ég ekki í sund en að öllum líkindum verður hlaupið hjá Fimleikafélaginu (www.hhfh.is) - ef vetrarhörkurnar, frostið, rokið og myrkrið, dragi úr mér allan mátt. Svo má ég ekki fara of seint að sofa ef ég á að hafa einhverja krafta til að halda hlaupaþokka. Nú er klukkan tíu, best að koma sér í bælið og gera áður teygjurnar sem teygnimeistari hlaupahópsins og aðstoðarstúlkur hans sýndu mér á fimmtudaginn.


Þriðjudagur - Vottar enn fyrir harðsperrum

Á þriðjudögum er oftast nær sprettir en eftir átök laugardags var réttast að taka því rólega. Fjölmargir voru mættir upp á Kapla - sama gengið og áður en vantaði þó Nonna. Dagskipun var hægur hlaupataktur og Hrönn leiddi hópinn. Farið var í áttina að Garðabæ og skrölt með fram villunum á Sjálandi og kvendin fóru í kælingu; þær vættu leggi og skó í ilströndinni en ég ásamt fleirum lét það ógert. Komin til baka upp á Kapla þá var teygt og rædd hátíð hlaupahópsins sem verður í næsta mánuði. Næsta æfing er á fimmtudaginn.

Bara til að því sé haldið til haga: Þá hjólaði ég til og frá vinnu.


Reykjavíkurmaraþon 2010, hálft

Ég vaknaði klukkan sex, teygði á fótum, kreppti ristar og skynjaði að allt virtist í lagi – ég gæti, ef ég vildi, hlaupið eins og vindurinn í RM. Skrokkurinn var í þokkalegu standi – fótameinin öll hin sömu, hvorki meiri né minni. Kominn á fætur klæddi ég mig í hlýrabol, sem ég keypti í gær og nú er ég ógeðslega kúl, stuttbuxur, sokka og skó. Tíndi saman í tösku annað hlaupadót sem ég taldi mig þurfa að hafa með mér til Reykjavíkur. Ég borðaði hefðbundinn morgunverð, hafragraut með hunangi, appelsínusafa og tvöfaldan expressó. Að þessu loknu gerði ég bæði liðkandi og losandi æfingar en gætti mín á því að fara rólega í allar fettur.

Brynja Björg og Erla sóttu mig svo um átta og við fórum inn til Reykjavíkur. Er við nálguðumst bæinn sáum við að veðrið var allt annað en í Hafnarfirði, þar sem það er ævinlega best. Runnu á okkur tvær grímur er við sáum sjóinn við Sæbrautina, freyða og frussast langt upp á götu. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ráðlegt að hlaupa í hlýrabol í þessum kulda. Gerðist ég hlaupahlunkur með vaxandi taugaveiklun; aukabolur eða ekki – þar er efinn.

Við komum að MR skjálfandi á beinunum, hittum liðsfélagana og fóru menn með brýningar og hvatningarorð. Tíminn leið hratt og menn rottuðu sig saman í hópa eftir því hve hratt skyldi farið. Ákváðum nokkur, Kristín, Þórdís og Guðmundur að fylgja héra – liðsmanni hlaupahópsins – er ætlaði að fara leiðina á 1:45 og sjá svo til hvernig hvernig hverjum og einum liði.

Skyndilega varð markbyssunni skotið og við rukum af stað. Öll, svo uppfull af orku, reyndum við að hafa hemil á okkur. Ég og Guðmundur fylgdumst að vel og lengi, kannski vissi hann ekkert af mér, og gætti ég þess að missa hann aldrei langt frá mér. Á leiðinni út á Seltjarnarnes hitti ég félaga vorn Arnar, Bjartsmennið mesta, sporléttu hindina. Við köstuðum kveðjum hvor á annan og héldum áfram einbeittir. Hlaupið hélt áfram og það fór aðeins að blása og allt í einu var sé staddur inni í þvögu hlaupandi karla sem klufu svo vel vind og héldu góðum hraða, og allir hlaupararnir söfnuðust saman bak við hávaxinn vindbrjót er allt klauf. Það var alveg ágætt því ég hafði breytt áætlun minni ögn; í stað þess að fara á 4:50–4:55 tempói ákvað ég að bæta í til að eiga eitthvað upp á að hlaupa ef vindurinn á Sæbrautinni yrði óþolandi. Þess gerðist ekki þörf – ég hélt uppteknum hætti og gaf ekkert eftir. Meðaltempóið var komið í 4:40 og nú var bara að halda því til loka og stundum efaðist ég um hvort það væri gerlegt. Að venju stoppa ég á drykkjarstöðvum, hef aldrei náð þeirri tækni að drekka á ferð, fæ alltaf allt í andlitið. Ég sleppti fyrstu stöðinni, fékk mér tvö glös af vatni á þeirri næstu og þar eftir annarri hverri. Það vantaði einhvern vökva í kroppinn til að jafna út orkugelið sem ég gleypti í upphafi hlaups; kannski ekki rétt að gera svo því maginn var eitthvað að láta vita af sér.

Eins og aðrir þá hélt ég áfram að hlaupa. Fram undan mér var Guðmundur og gætti ég þess að missa hann ekki langt frá mér, svo voru það sporlétti Ameríkaninn, sem var að hlaupa heilt, og annar karl sem ég hef séð í mörgum hlaupum. Við skiptumst á að leiða og halda uppi hraða. Það verður ekki sagt að þetta hafi verið neitt sérstaklega þægilegt en þetta var samt sem áður ekkert óþægilegt.

Miklu skipti, þegar maður var að djöflast þetta, að leiðtoginn Steinn, hið margfalda járnmenni, var alltaf að brýna. Hann hjólaði milli staða og kallaði hvatningaorð og það varð til þess að maður gaf í og fékk aukinn kraft. Einnig var þar vestfirska járnmennið, Bobbi, sem lét í sér heyra. Takk fyrir það – alltaf gott að fá hvatningu.

Hlaupið hélt áfram, og mér finnst munur að búið er að breyta leiðinni; ekki lengur hlaupið gegnum gámasvæði. Nú eru tvær brekkur í stað einnar sem er löng – bananabrekkan við Klepp. Áður en ég kom að brekkunum gerðist nokkuð. Maður einn, sem ég sporléttur tók fram úr og hafði hinn þokkalegasta hlaupastíl, kallaði: Örn! ekki hægja á þér! Þar var kominn skjalavörðurinn og ritstjórinn á Selfossi, Þorsteinn Tryggvi. Báðir ætluðum við að bæta okkur ef aðstæður væru okkur að skapi – fara rólega af stað en hlaupa þetta á undir 1:40 ef svo bæri við. Þetta fyllti mig krafti, að vera lítill leiðtogi, og ég bætti frekar í heldur en hitt; ég hljóp og ég hljóp, og hann hljóp á eftir mér. Kominn upp á Kleppsveg í áttina að Laugarásbíói reyndi ég að halda jöfnum hraða; ekki bæta of mikið í. Það gekk eftir og ég hljóp á jöfnum hraða. Einn og einn kílómetri að baki og það styttist í markið. Þegar ég kom svo að Höfða sá ég að ég hafði möguleika á að bæta tíma minn svo um munar. Því skal þó ei neitað að það var kominn þreyta í lappir – en ég hélt áfram. Þar var enn einn FH-ingurinn og haldið var uppteknum hætti – hlaupið. Svo allt í einu var ég kominn inn á Lækjargötu og markið blasti við mér. Ég leit á hlaupaúrið og sá að ef ég gæfi nú í, tæmdi tankinn og öskraði ögn, myndi mér takast að hlaupa þetta á undir 1:40. Ég beit á hinn jaxlinn og gaf í – tók fram úr.

Hlunkur komst í mark: Hálft maraþon, PB 1:39:34 (markklukka), 1:39:15 (flaga). Fjörutíu mínútna múrinn hefur verið brotinn.

Í markinu voru allir kátir og hressir – þó mest sveittir og þyrstir. Piltungar og stúlkur gáfu okkur að drekka. Þegar komið var af marksvæði hittist hópurinn hreifur. Allir voru að bæta sig. Ég ætlaði að gera allt rétt og hlaupa stutt rólegt niðurskokk en líkaminn sagði nei – lærin eru steikt og stíf, og eru það enn þegar þetta er skrifað nokkrum klukkustundum síðar. Þetta er að ég held mitt sjöunda hálfa maraþon. Hljóp fyrst 2003: 1:49:37. Gaman að það er alltaf hægt að bæta sig.


Fimmtudagur - rólega, hratt, max, super max

Sundæfing í kvöld sett á blað fyrir þá sem þurfa að taka á því: Fætur 150 (25 hratt + 25 róleg) * 3; Drill 150 m rólega; 8 * (4 * 25 m) [a. 1 * (keppnishraði f/100 m + rólega) * 2] / [b. 1 * (rólega - hratt -- max -- super max)]; niður. -- Þetta var annars þokkalegt en best var að komast í pottinn eftir átökin.

Ilin er enn ill og ætla að athuga með stuðning. 


Miðvikudagur - Nú hlaupið með vaxandi hraða

Vonandi er þetta allt að koma; fleiri og hraðari bæjarhlaup. Enn er il með illsku en fer vonandi að lagast. Þjálfinn hefir pínt mig tvisvar, síðast í dag, og teygt á þessu; það var ógeðslega vont. Ætla þó að athuga með hækkun undir ilboga og vonandi verð ég hlaupafær.

Afrekið þessa vikuna var tiltekt í geymslu - hefir staðið til í næstum átta ár - og nú kem ég fáknum þar fyrir. Eftir afrekið heimsótti ég hjólabúðina og fékk búkka að láni. Hef hjólað tvisvar eins og moðerfokkar á sama stað. Það er nokkur hávaði í græjunni en þá er bara að setja tappa í eyrun. Svo fæ ég til prufu hraða- og snúningsmæli. Þá hefjast mælingar fyrir alvöru.

Á morgun verður sundæfing - vonandi drillum við þá.


Sunnudagur - Loksins hlaupið með vaxandi púls

Hlunkaðist út eftir kvöldmat og hljóp í fyrsta skiptið í meira en mánuð. Ekki fór ég langt; fimm kílómetrar þungur um hverfið. Þetta var hlaup með vaxandi púls, byrjaði rólega og var meðalpúlsinn þá 110 en endaði síðasta kílómetrann á 172. Hraðinn, ef einhver, var einnig vaxandi - en ekki þess virði að verða færður til bókar. Nú drekk ég malt og teygi. Nú er bara að setja sér háleit markmið!

Miðvikudagur - Letikasti vonandi lokið!

Hefi verið latur síðustu vikur. Hefi ekkert hlaupið - aumur í vinstra hné og leiðist það. Hefi ekki reynt að hjóla til og frá vinnu eftir það kólnaði, og mér leiðist í strætó. Mætti þó á sundæfingu og smaug gegnum vatnið; stímdi eitt skiptið á bakkann og fékk kúlu á höfuðið. Sundæfing á annað kvöld; þá ætla ég að vera vinur vatnsins og reyna bringubak á hlið.

Laugardagur - Synt til liðkunar með bringusundshné

Hef ekki hlaupið neitt þessa vikuna. Velti því fyrir mér í morgun að fara langt en sundbrölt síðustu vikna hefur þreytt vinstra hné - klassískt bringusundshné með eymslum utanvert, nokkuð sem er þekkt meðal kappsfullra sundmanna. Af þeim sökum læt ég duga að hjóla og synda á meðan þetta jafnar sig. Fór því í laugina í þriðja skiptið í þessari viku og synti með blöðkunum - æfði skriðsunds- og baksundstök. Í potti var svo teygt af krafti - fann nýja teygju fyrir aftanverð læri, og ég nötraði.

Ég hjólaði fjórum sinnum til vinnu, það rigndi á mig í flest öll skiptin og varð ég gegnblautur til fóta. Í eitt skiptið á leiðinni heim, þegar rigndi sem mest, sprakk að framan. Varð hjólagarpur að setjast inn í strætóskýli til að skipta um slöngu  og það gekk vel. Aðrir ferðalangar, sem komu inn í skýlið urðu sannarlega undrandi er þeir sáu hvílík hetja var þarna; menni sem næstum reif dekkið af gjörðinni með tönnunum, skipti um slöngu og pumpaði í nýja slöngu á fumlausan hátt.

Þá var ég næstum farinn að gráta einn morguninn; hélt Garminn minn, traustan fylgdarsvein, dauðann. Ég stóð sportlegur frammi á gangi. Klæddur í hjólabrók með buff á höfði og hjálm í klofi (átti eftir að setja hann upp á hausinn). Var tilbúinn til brottfarar, út í rokið og rigninguna, með sportúrið á handlegg og kveikti á því. Beið þess að himintunglin næðu sambandi við mig. Ekkert gerðist og ég fylltist örvæntingu - auður, tómur skjárinn glotti - en lét ekkert á því bera hversu aumur ég var. Fór klökkur inn í eldhús og setti Garminn í samband við ferskt rafmagn, ekkert gerðist. Ég fór út án úrs og lagði hjólandi af stað. Alla leiðina til vinnu velti ég því fyrir mér hvað skyldi gera. Ekki hef ég efni á að kaupa nýjan Garm - kosta nú 44 þúsund en kostuðu 24 er ég fékk hann haustið 2007. Góða sterka íslenska krónan! Hugsaði með mér: Ég hætti snemma í dag og hjóla heim. Fer til þeirra sem flytja inn Garmana og læt þá líta á, ég hringi í húsfrúna og bið um bílinn til að reka þessi bráðnauðsynlegu erindi. Allt þetta var gert en húsfrúin svaraði ekki. Svo hringdi hún til baka og var heima. Ég bað hana klökkri röddu að líta á gripinn - og viti menn! Hann var á lífi. Rafhlaðan var bara tóm og ég að taugaveiklast að óþörfu. Ég tók gleði mína á ný. Þá sagði hún: Þú ert fljótur til þegar þetta bilar og minnti mig á hillur i kjallara sem bíða þess, og hafa beiðið lengi, að vera settar upp.

Kannski verður synt á morgun. Leiðtoginn hefur sent okkur æfingu í tölvupósti.


Þriðjudagur - Var með klofkút í kvöld

Mætti á sundæfingu karla og kellinga í kvöld og finn mun - framfarir mínar eru marktækar enda syndi ég með klofkút. Meistaraefnið spinnir nú léttilega og tekur kafsundstak, telur milli sundtaka og lætur sig fljóta, teygir á búk í handatökum bringusunds og skriðs, lætur tær snertast er fætur koma saman. Horfir afslappaður á botninn, setur sveig á handahreyfingu í skriðsundstaki, gætir sín á að anda og reynir ekki að skvetta á aðra sundmenn. Efnið er ekki fyrst, en fer hraðar.

Hjólaði til vinnu í morgun og lengdi fyrir nesin á leiðinni inn eftir. Mikill mótvindur á leiðinni til baka og fór beint yfir hæðirnar. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband